Persónuverndarstefna Boðkaup.is

 

Almennt

Boðkaup hefur einsett sér að tryggja trúnað, áreiðanleika og tiltækileika persónuupplýsinga í hvívetna.

Í persónuverndarstefnu þessari er því lýst hvernig Boðkaup vinnur með persónuupplýsingar einstaklinga. Öll vinnsla fyrirtækisins á persónuupplýsingum fer fram á grundvelli laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga („persónuverndarlög“).

Með persónuupplýsingum er átt við allar upplýsingar sem hægt er að rekja til tiltekins einstaklings. Hér má nefna upplýsingar á borð við nafn, kennitölu, heimilisfang, símanúmer, netfang, myndefni, netauðkenni, greiðsluupplýsingar, samskipti og fleira. Í 2. tl. 3. gr. persónuverndarlaga má finna nánari útlistun á því hvað fellur undir hugtakið persónuupplýsingar.

Með vinnslu á persónuupplýsingum er átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar. Sem dæmi um vinnslu á persónuupplýsingum má nefna söfnun þeirra, skráningu, varðveislu, breytingu, miðlun, notkun, skoðun og fleira. Í 4. tl. 3. gr. persónuverndarlaga er nánar útskýrt hvað fellur undir hugtakið „vinnsla“.

 

Ábyrgðaraðili

Ábyrgðaraðili við vinnslu persónuupplýsinga er sá aðili sem ákveður tilgang og aðferðir við vinnsluna, sbr. 6. tl. 3. gr. persónuverndarlaga. Boðkaup er í hlutverki ábyrgðaraðila þegar kemur að vinnslu persónuupplýsinga um þá sem nota og eiga í viðskiptum á vefsíðu fyrirtækisins.

Samskiptaupplýsingar Boðkaup.is:

 

Hvað er skráð um þig hjá Boðkaup.is?

 

Þegar þú stofnar aðgang

Til þess að kaupa og selja vöru eða þjónustu hjá okkur verður þú að stofna aðgang. Ef þú skráir þig inn með Facebook eða Google söfnum við upplýsingum um nafn þitt og netfang. Skráir þú þig með hefðbundnum hætti söfnum við upplýsingum um nafn, netfang og lykilorð. Heimild til þess byggir á samþykki þínu, sbr. 1. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Þegar þú bætir við upplýsingum

Þegar þú stofnar aðgang verður til síða sem er tileinkuð þér. Þar getur þú sett inn viðbótarupplýsingar, svo sem símanúmer, heimilisfang og póstnúmer. Jafnframt getur þú valið að hafa upplýsingar aðgengilegar þeim sem heimsækja síðuna. Tilgangur þessa er að einfalda öðrum að setja sig í samband við þig. Byggir heimild til vinnslu persónuupplýsinga hér á samþykki þínu, sbr. 1. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Þegar þú skráir vöru eða þjónustu

Viljir þú selja vöru eða þjónustu skráir þú hana á síðunni, þ.e. setur inn mynd af henni og upplýsingar um verð. Þær upplýsingar verða í kjölfarið aðgengilegar öðrum notendum og þeim sem heimsækja síðuna. Vinnsla persónuupplýsinga byggir í þessu tilfelli á 2. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Þegar þú gerir tilboð í vöru eða þjónustu

Á heimasíðu Boðkaup.is getur þú gert tilboð í tilteknar vöru eða þjónustu. Til þess að uppboð sé mögulegt verður Boðkaup að vinna með upplýsingar um fjárhæð og vöruna/þjónustuna sem þú býður í. Ef þú ert með hæsta boð færð þú tölvupóst þess efnis og hefur þá möguleika til að ganga frá kaupum. Heimild til umræddar vinnslu grundvallast á 2. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Þegar þú pantar vöru eða þjónustu

Á heimasíðu Boðkaup.is getur þú pantað tilteknar vöru eða þjónustu. Til þess að afgreiða pöntun þína verður Boðkaup að vinna með upplýsingar um vöruna/þjónustuna og það magn sem þú ætlar að kaupa. Þegar pöntun er tilbúin færð þú tölvupóst þess efnis og getur þá í kjölfarið gengið frá kaupum. Heimild til umræddar vinnslu persónuupplýsinga grundvallast á 2. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Þegar þú kaupir vöru eða þjónustu þar sem sölukvittun er afhend

Þegar þú kaupir vöru eða þjónustu vinnum með upplýsingar um nafn þitt, netfang, heimilisfang, símanúmer, vöruna/þjónustuna, verð hennar, greiðsluaðferð, hvernig þú ætlar að fá vöruna/þjónustuna afhenta og hvort greitt hafi verið fyrir hana. Við sendum þér jafnframt sölukvittun í tölvupósti. Er slíkt nauðsynlegt svo hægt sé að efna samning sem þú ert aðili að og byggir heimild til vinnslu persónuupplýsinga í þessu tilfelli á 2. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Þegar þú selur vöru eða þjónustu þar sem sölukvittun er afhend

Þegar þú selur vöru eða þjónustu þar sem kaupandi fær afhenda sölukvittun safnar Boðkaup  upplýsingum um það. Er tilgangur þess að geta efnt samning sem þú ert aðili að og styðst vinnsla persónuupplýsinga því við heimild í 2. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Þegar þú átt í samskiptum við aðra notendur

Notendur á síðu Boðkaup.is geta átt í samskiptum sín á milli. Er tilgangur þess að einfalda upplýsingagjöf og gefa notendum færi á að nálgast hvorn annan, til dæmis vegna spurninga í tengslum við vöru eða þjónustu sem annar þeirra er að selja. Kjósir þú að eiga í samskiptum á síðunni byggir heimild til vinnslu persónuupplýsinga á samþykki þínu, sbr. 1. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Kaup- og sölusagan þín

Á þinni síðu hjá Boðkaupum verður til yfirlit yfir þær vörur og þjónustur sem þú hefur keypt og selt. Er tilgangur þess að veita þér yfirsýn yfir viðskiptasögu þína hjá Boðkaupum. Grundvallast vinnsla persónuupplýsinga þar á samþykki þínu, sbr. 1. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Þegar þú skráir þig á póstlista

Viljir þú fá upplýsingar um vörur eða þjónustur sem í boði eru á Boðkaup getur þú skráð þig á póstlistann okkar með því að slá inn netfangið þitt. Heimild til þeirrar vinnslu persónuupplýsinga byggir á samþykki þínu, sbr. 1. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Þegar þú notar þjónustuna okkar í nafni fyrirtækis

Fyrirtækjum stendur til boða að nota þá þjónustu sem vefsíða Boðkaup.is býður upp á. Boðkaup kann þá að vinna með tengiliðaupplýsingar viðkomandi tengiliðs á borð við nafn, netfang og símanúmer. Heimild til vinnslu á tengiliðaupplýsingum byggir á 6. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Þegar þú notar vefsíðuna okkar

Vefkökur eru litlar textaskrár sem eru geymdar á tölvunni þinni eða í öðrum snjalltækjum þegar þú heimsækir vefsíðu. Boðkaup notar eftirfarandi vefkökur:

Nauðsynlegar vefkökur. Þessar kökur eru nauðsynlegar svo heimasíðan okkar virki með eðlilegum hætti, til dæmis til að unnt sé að auðkenna innskráða notendur. Heimild til þessa byggir á 6. tl. 9. gr. persónuverndarlaga.

 

Miðlun persónuupplýsinga til þriðja aðila

Boðkaup notar rafrænar lausnir frá þriðja aðila sem auðvelda fyrirtækinu að halda utan um og miðla upplýsingum. Eigendur lausnanna kunna að hafa aðgang að persónuupplýsingum í tengslum við þjónustu þeirra við kerfið. Vinnslusamningur er ávallt gerður við þjónustuaðila sem kveður á um skyldu hans til að gæta fyllsta trúnaðar, tryggja öryggi og fara eingöngu með persónuupplýsingar í samræmi við fyrirmæli Boðkaup.is.

 

 

Öryggi persónuupplýsinga

 

Boðkaup hefur gripið til tæknilegra og skipulagslegra öryggisráðstafana í því skyni að tryggja viðunandi öryggi persónuupplýsinga. Aðgangsstýringar eru að kerfum og húsnæði fyrirtækisins. Öryggisráðstöfunum þessum er ætlað að vernda persónuupplýsingar gegn því að þær breytist, glatist, verði birtar eða aðgangur verði veittur að þeim í leyfisleysi.

 

Varðveislutími persónuupplýsinga

Persónuupplýsingar eru geymdar þar til þú eyðir þeim eða eyðir aðgangi þínum. Bókhaldsgögn eru geymd í sjö ár í samræmi við lög um bókhald nr. 145/1994. Þegar ekki er þörf fyrir Boðkaup hafa persónuupplýsingar undir höndum lengur eyðir fyrirtækið þeim með öruggum hætti.

 

Réttindi þín

Þú nýtur ákveðinna réttinda samkvæmt persónuverndarlögum. Ef þú vilt neyta þessara réttinda þinna máttu hafa samband við okkur í gegnum netfangið bodkaup@bodkaup.is.  Við höfum einn mánuð til að svara erindi þínu en getum framlengt frestinn um tvo mánuði ef beiðnin er sérstaklega umfangsmikil. Rétt er að taka fram að réttindi þín eru ekki fortakslaus og kunna að vera háð ákveðnum skilyrðum. Hér er að finna yfirlit yfir helstu réttindi þín:

Réttur til aðgangs. Þú átt rétt á að óska eftir aðgangi að þínum gögnum og fá afrit af þínum persónuupplýsingum.

Réttur til leiðréttingar. Þú átt rétt á að fá upplýsingar um þig sem eru rangar og ónákvæmar leiðréttar.

Réttur til eyðingar. Í ákveðnum tilfellum getur þú átt rétt á að þínum persónuupplýsingum sé eytt. Þetta á einkum við í þeim tilfellum þar sem upplýsingar eru ekki lengur nauðsynlegar, þú hefur andmælt vinnslunni, vinnslan reynist ólögmæt, eða ef vinnslan byggir á samþykki sem þú hefur afturkallað.

Réttur til að andmæla vinnslu. Byggi vinnsla okkar á persónuupplýsingum á lögmætum hagsmunum, og þú telur að hún brjóti gegn grundvallarréttindum þínum, þá getur þú andmælt vinnslunni. Við hættum þá vinnslunni nema við sýnum fram á ríkari hagsmuni af því að halda henni áfram.

Réttur til takmörkunar á vinnslu. Í eftirfarandi tilfellum átt þú rétt á að við stöðvum vinnslu persónuupplýsinga:

  • Ef þú véfengir að persónuupplýsingar séu réttar (þar til við getum staðfest að þær séu réttar).
  • Vinnslan er ólögmæt, en þú vilt ekki að persónuupplýsingunum sé eytt.
  • Við þurfum ekki lengur á upplýsingunum að halda en þú þarfnast þeirra til að hafa uppi, stofna eða verja réttarkröfu.
  • Þú hefur andmælt vinnslunni og við höfum ekki bent á ríkari hagsmuni af því að halda henni áfram.

Réttur til að afturkalla samþykki. Í þeim tilfellum þar sem við byggjum vinnslu á samþykki þínu er þér ávallt heimilt að afturkalla slíkt samþykki. Afturköllun á samþykki þýðir þó ekki að vinnslan sem fór fram áður en samþykki var afturkallað sé ólögmæt.

Réttur til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd. Teljir þú að ekki sé farið með persónuupplýsingar þínar í samræmi við persónuverndarlög átt þú ávallt rétt á að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd (www.personuvernd.is).

 

Frekari upplýsingar

Hafir þú frekari spurningar um hvernig Boðkaup meðhöndlar persónuupplýsingar þínar getur þú ávallt sent okkur fyrirspurn á netfangið bodkaup@bodkaup.is.  

 

Endurskoðun

Persónuverndarstefna þessi getur frá einum tíma til annars tekið breytingum í samræmi við breytingar sem verða á viðeigandi lögum og reglugerðum eða ef breytingar verða á því hvernig Boðkaup vinnur með persónuupplýsingar.